Meetings
Members

Lionsklúbbur Þorlákshafnar

Stofnaður 27. maí 1975.

 

 

26/1 2013

Blikur á lofti

Lionsklúbbur Þorlákshafnar hefur starfað síðan árið 1975 og verður því 39 ára á þessu ári. Í gegnum árin hefur klúbburinn verið öflugur í að styðja við mannlífið og líknarmál í sveitarfélaginu.

Klúbburinn beitti sér mikið í landgræðslumálum hér í Þorlákshöfn á upphafsárunum og ekki veitti af. Uppgræðslusvæðið Skýjaborgir vestan við gatnamót Þorlákshafnarvegar og Eyrarbakkavegar er í miklum blóma og áningabekkurinn þar er mikið notaður af ferðamönnum.

Jólasveinaþjónusta klúbbsins hefur fengið geysilega góðar viðtökur í gegnum áratugina og veitt börnunum mikla gleði.

Núna eru blikur á lofti með starf klúbbsins því félögum hefur fækkað verulega af ýmsum óviðráðanlegum ástæðum og ekki hefur tekist að fylla í skörð þeirra sem hafa horfið frá.

Einnig eru hlutir eins og aðstöðuleysi sem gerir svona félagsskap erfitt fyrir. Fundargjöld í Ráðhússölunum eru meiri en svo að lítill en mikilvægur klúbbur ráði við þau. Það er kaldhæðni örlaganna að klúbbur sem gefur allt sitt til samfélagsins / sveitarfélagsins skuli þurfa sæta þessum afar kostum.

Tíminn fram á vor sker úr um framtíð Lionsklúbbs Þorlákshafnar.

Sjá flipann " Tilkynningar frá klúbbnum".

 

24/12 2013

Kærar þakkir til íbúa Þorlákshafnar fyrir að taka vel á móti jólasveinunum. Ágóðanum verður varið til líknarmála eins og alltaf. 

Sérstakar þakkir eru til aðstoðarmanna jólasveinanna, Arnars, Andrésar,  Ágústar, Garðars, Heimis, Magnúsar og Sigurbergs,  því án þeirra er þetta ekki gerlegt.

 

25/10 2013 

Frábær skemmtun !

Klúbburinn skellti sér í leikhúsferð á haustdögum og sáu farsann Makalaus sambúð með Leikfélagi Þorlákshafnar.

 

Starfsárið 2013 - 2014 hófst þann 1. júlí 2013

Stjórn starfsársins 2013 - 2014 er þannig skipuð:

Formaður, Sigurður Garðarsson

Ritari, Tómas Jónsson

Gjaldkeri, Steinþór Oddgeirsson

Vefstjóri, Guðmundur Oddgeirsson

 

10/6 2013

Rusl tínt upp meðfram vegum.

Verkefni kvöldsins var að tína upp rusl meðfram vegum. Svæðin sem voru hreinsuð náðu frá Þorlákshöfn upp í gegnum Þrengslin, út að Hveragerði og austur að brúnni yfir Ölfusárósinn. Sem fyrr er mesta furða hversu mikið af rusli er fleygt út um bílgluggana, skiptir tugum kílóa.

Veður var ágætt, rigning í grend og verkefninu var lokið laust fyrir klukkan 23.

 

9/4 2013

Umhverfisverkefnið að Skýjaborgum

Nú var komið að vorverkunum að Skýjaborgum sem eru vestan við gatnamót Þorlákshafnarvegar og Eyrabakkavegar.

Áburður var borinn á trjágróðurinn og rusl hreinsað upp. Ruslatunnan við áningabekkinn í rjóðrinu neðan við bílastæðið var yfirfull. Eitt og annað var í tunninni allt frá súkkulaðibréfi upp í barnableyju með þykku innihaldi. Vegna ólyktar var tunnan klórþvegin.

Trjágróður virðist dafna ágætlega sem hvetur okkur til áframhaldandi plöntunar á svæðinu okkar.

Af dýralífi svæðisins er það að segja. Kanínur virðast hafast við í Skýjaborgum þó að við höfum ekki séð til þeirra að þessu sinni en þær eru búnar að grafa holur hér og þar um svæðið. Mýsnar eru iðnar við að fjölga sér, uglunni til mikillar ánægju.

 

12/03 2013

Verkstæði jólasveinanna

Mikið gekk á þegar aðstoðarmenn jólasveinanna tóku sig til og "snyrtu" skegg sitt.

Skapalón var búið til eftir „besta“ gamla skegginu. Eftir ýmsar vangaveltur og prófanir varð ljóst að ekki væri heppilegt að klippa gæruna heldur væri betra að skera leðrið á „nöktu“ hliðinni. Með því að skera og toga í sundur sést ekki í leðrið þegar skeggið er full vaxið andliti. Að hönnun og gæðaprófunun loknum var sett upp framleiðslulína. Einn tússaði á leðrið eftir skapalóninu, tveir skáru í leðrið, tveir toguðu í sundur, einn gataði fyrir teygjum, einn þræddi og batt teygjurnar í.

Innan við klukkutíma var verkefninu lokið, nítján skegg lágu nú velsnyrt í kassa.

 

22/2 2013

Þriðja villimannakvöld Lionsklúbbsins Geysis tókst frábærlega

Lionsklúbburinn Geysir hélt sitt þriðja villimannakvöld og nú að þessu sinni í Aratungu. Vel á annað hundrað Lionsfélagar og gestir tróðu í sig ekta hrossakjöt og hrossabjúgu með kartöflum, rófum og uppstúf.

"Drengjakór" íslenska lýðveldisins tók lagið hvernær sem tækifæri gafst og fóru með gamanmál.

Félagar úr Lionsklúbbi Grindavíkur sungu nokkur vel valin Lionslög og í lokin sameinuðu þeir alla í fjöldasöng. Margir Lionsfélagar stigu í pontu inn á milli atriða og sögðu óborganlega brandara.

Fimm mættu fyrir hönd Lionsklúbb Þorlákshafnar. Tveir þáðu far fram og til baka með Grindvíkingum sem að sjálfsögðu fóru um suðurstrandaveginn og því hægt um vik að stökkva um borð.

 

12/2 2013

Lionshreyfingin á Íslandi stóð fyrir málþingi um ólæsi á Íslandi í Norrænahúsinu fyrr í dag. Ólæsi er eitt af alþjóðaverkefnum Lionshreyfingarinnar.

Mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakopsdóttir, opnaði málþingið. Fyrirlesarar voru þau Steinunn Torfadóttir, lektor í lestrarfræði og sérkennslu við Háskóla Íslands, Guðmundur B. Kristmundsson og Andri Snær Magnason rithöfundur. Sjá nánar á www.lions.is

29/1 2013

"Með viljan að vopni leggjum við lið"

Embættismenn í umdæmi 109A heimsóttu Lionsklúbb Þorlákshafnar.

Guðmundur Helgi Gunnarsson umdæmisstjóri og Hilmar Einarsson svæðisstjóri heimsóttu klúbbinn okkar þriðjudaginn 29. janúar 2013. Að venju fór Guðmundur Helgi umdæmisstjóri yfir það helsta sem er að gerast í hreyfingunni, heima og erlendis. 

Hilmar svæðistjóri sagði meðal annars klúbbnum sínum, Lkl Laugarvatns, og frá ánægjulegum samskiptum við Lkl Þorlákshafnar í gegnum tíðina.

Guðmundur Helgi Gunnarsson umdæmisstjóri 109A og Hjalti Tómasson formaður Lkl Þorlákshafnar, skiptast á fánum.

18/1 2013

LCIF Alþjóðahjálparsjóður Lions - Fréttabréf janúarmánaðar 2013

Janúar er ár hvert tileinkaður hjálparsjóði Lions til heiðurs Melvin Jones (f. 13/1 1879 - d. 1961) stofanda Lions.

 

15/1 2013

Mögnuð frásögn í máli og myndum frá ferð á Suðurskautslandið

Pólfarinn og félagi í Lionsklúbbi Reykjavikur, Ástvaldur Guðmundsson, hélt magnaðan fyrirlestur um ferð hans og Selfyssingins Gunnars Egilssonar á Suðurskautslandið fyrir tveimur árum. Sjá nánar í flipanum "Fyrri atburðir og fundir".

 

 

10/1 2013.

Atlantsolía býður félagsmönnum í Lionsklúbb Þorlákshafnar afslátt á eldsneyti á öllum stöðvum Atlantsolíu.

Dælulykillinn veitir:

• 6 kr. afsláttur pr. lítra á öllum sjálfsafgreiðslustöðvum Atlantsolíu.
• 10 kr. afsláttur pr. lítra á afmælisdegi dælulykilshafa.
• 7 kr. afsláttur pr. lítra á Atlantsolíudegi.

15 – 25% afsláttur hjá samstarfsaðilum Atlantsolíu sem bjóða upp á bílatengdar vörur og þjónustu.
(Sjá nánar á www.atlantsolia.is)

Hægt er að skrá sig á afsláttinn inn á þessari vefslóð: http://www.atlantsolia.is/umsoknir/lion.aspx

 

9/1 2013

Félagar, fyrsti fundur ársins verður þriðjudaginn 15. janúar og hefst klukkan 20:00. Þessi fundur verður haldinn í Versölum, Ráðhúsi Ölfus.

Fyrirlesari kvöldsins er Ástvaldur Guðmundsson Suðurpólfari. Valdi segir frá ferðinni í máli og myndum.

 

Tilkynning til Þorlákshafnarbúa

Þetta er kveðja frá jólasveinunum í Geitafelli og aðstoðarmönnum þeirra.

Við þökkum góðar viðtökur og vonum að koma okkar hafi fært börnunum gleði og ró í biðinni eftir jólunum.

Sérstakar þakkir fá sérlegir aðstoðarmenn þeir Garðar, Arnar, Þröstur, Vignir, Hjalti, Heimir, Magnús og Andrés.

Ágóðanum af þessu samstarfi okkar verður varið til líknarmála.

Með ósk um gleðileg jól og farsæld á nýju ári þökkum við ykkur samstarfið og velviljann á liðnum árum.

25. desember 2012. Jólasveinarnir og félagar í Lionsklúbbi Þorlákshafnar.

 

24. nóvember 2012.

Starfið fer vel af stað, tveir félagsfundir og einn menningarfundur hafa verið haldnir. Sjá nánar á síðunni "Fyrri atburðir og fundir".

Ekkert varð úr haustgróðursetningunni vegna tíðarfars og ekkert annað að gera en að bíða vorsins.

Starfsárið 2012 - 2013 hófst þann 1. júlí 2012

Stjórn starfsársins 2012 -2013 er þannig skipuð:

Formaður, Hjalti Tómasson.

Ritari, Guðmundur Oddgeirsson.

Gjaldkeri, Páll Halldórsson.

 

20. júní 2012.

Lionsklúbbur Þorlákshafnar fékk í vor vilyrði fyrir styrk úr landgræðslusjóði Ölfus. Úthlutunarnefnd sjóðsins eru færðar bestu þakkir.

Styrkurinn verður nýttur til plöntukaupa sem verða settar niður í ræktunarsvæði klúbbsins að Skýjaborgum. Ekki var talið skynsamlegt að planta út í sumar vegna þurrka en áætlað er að fara í "haustplöntun" í september. Lögð verður áhersla á að planta út sitkagreni og stafafuru í lúpínubreiðurnar og í jaðra hennar. Félagar bíða spenntir eftir því að formaður Skýjaborgarnefndar, Tómas Jónsson, blási í lúðurinn.

 

 

Lions Clubs International is the world's largest service club organization with more than 1.4 million members in approximately 46,000 clubs in more than 200 countries and geographical areas around the world.

Lions Clubs International News
Connect with Us Online
Twitter