Meetings

 Fréttir úr Lionsblaðinu og vefsíðu Lions.is
1.  Guðrún Yngvadóttir kjörin í alþjóðastjórn 2010-2012 fyrst kvenna í Evrópu
2.  Laufey Jóhannsdóttir ein af fyrstu konunum í heiminum sem verður fjölumdæmisstjóri í Lions 

__________________________________________________________

Guðrún Yngvadóttir kjörin í alþjóðastjórn 2010-2012 fyrst kvenna í Evrópu

Á alþjóðaþingi Lions sem haldið var í
Sydney

í Ástralíu í sumar var Guðrún Björt Yngvadóttir kosin í alþjóðastjórn Lions til tveggja ára. Guðrún Björt er í Lionsklúbbnum Eik í Garðabæ og er fyrsta konan í Evrópu til að gegna þessu embætti. Við óskum Guðrúnu til hamingju með þennan heiður um leið og henni er óskað alls hins besta í krefjandi og ábyrgðarmiklu starfi fyrir alþjóðahreyfinguna á komandi árum.

 

 
Hver er Guðrún?
Guðrún hefur verið félagi í Lkl. Eik, síðan 1992 og verið virkur félagi í klúbbi, umdæmi og fjölumdæmi. Hún hefur m.a. verið umdæmisgjaldkeri, fræðslufulltrúi og Leofulltrúi í umdæmisstjórn 109A. Hún hefur verið fjölumdæmisritari og fræðslustjóri í fjölumdæmisráði, varaumdæmisstjóri, umdæmisstjóri og fjölumdæmisstjóri. Guðrún hefur kennt á leiðtoganámskeiðum Lions á Íslandi síðan 1997 og í Leiðtogaskólum í Evrópu síðan 1999 og einnig verið fyrirlesari og kennari á Evrópu Forum, Alþjóðaþingum og umdæmisþingum í Evrópu siðan 2000. Hún er stofnandi og ábyrgðarmaður Leiðtogaskóla Lions á Íslandi síðan 2000. Guðrún hefur hlotið nokkrar alþjóðlegar viðurkenningar og erProgressive Melvin Jones félagi.

Guðrún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík og námi í lífeindafræði frá Tækniskóla Íslands. Síðar stundaði hún nám í lífeðlisfræði og stjórnunarfræðum við Háskólann í Gautaborg og listasögu við Háskóla Íslands. Hún hefur starfað við rannsóknir, kennslu og stjórnun, m.a. við Borgarspítalann, Tækniskóla Íslands og lengst af við Endurmenntun Háskóla Íslands.

Guðrún er gift Jóni Bjarna Þorsteinssyni, lækni og félaga í Lkl. Mosfellsbæjar. Þau eiga tvö börn og 5 barnabörn.

Hvað gerir alþjóðastjórn?
Alþjóðastjórn heldur fjóra staðbundna fundi á ári, en þess á milli eru haldnir símafundir og veffundir nefnda og vinnuhópa. Stjórnin mótar stefnu og stýrir þróun og heldur utan um alla starfsemi samtakanna. Stjórnin gerir fjárhagsáætlun allra deilda alþjóðaskrifstofu og hefur eftirlit með eignum og sjóðum alþjóðasamtakanna.

Alþjóðastjórnarmenn skiptast í 12 nefndir og er Guðrún í Leiðtogafræðslunefndinni. Aðalhlutverk þeirrar nefndar er að skipuleggja og þróa fræðslu og námsefni fyrir Lionsfélaga, sem er æði fjölbreytt. Má þar nefna: Gagnvirkt námsefni á vefsíðu alþjóðasamtakanna. Leiðtogaskólar sem haldnir eru í öllum heimsálfunum. Skólar fyrir umdæmisstjóra og aðra embættismenn umdæma og klúbba. Útgáfa námsefnis, bæði í rafrænu formi og prentað. Nefndir alþjóðastjórnar funda samhliða alþjóðastjórnarfundum, en nefndirnar nota einnig samskiptasíðuna “BoardEffec”), sem er eins konar vefræn skjalavarsla og fundarherbergi, þar sem geymd eru gögn og haldnir vinnufundir.
Í alþjóðastjórn Lions eru 34 stjórnarmenn, þar af 6 frá Evrópu. Alþjóðastjórnarmaður er fulltrúi síns svæðis/álfu á alþjóðlegum vettvangi og tengiliður milli Lionsfélaganna og Alþjóðasambandsins. Engu að síður er hann fulltrúi allra 206 Lionslandanna og má aðeins gera það sem er best fyrir alla Lionshreyfinguna. Til að uppfylla þessar skyldur þarf hann að heimsækja sem flest lönd og umdæmi á sínu svæði, kynnast starfseminni og taka reynsluna inn í alþjóðastjórnina. Hann á einnig að kynna stefnu og nýjungar frá alþjóðasamtökunum, veita upplýsingar og fræðslu, aðstoða við að leysa vandamál og að ná markmiðum.

____________________________________________________________________ 

Eftirfarandi grein birtist í Lionsblaðinu, tölublaði 240 í tilefni af því að í ár 2007 eru 20 ár frá því konur gátu orðið fullgildir félagar innan Lionshreyfingarinnar:

Laufey Jóhannsdóttir er  ein af fyrstu konunum í heiminum sem verður fjölumdæmisstjóri í Lions 


Við hittum að máli Laufeyju Jóhannsdóttur framkvæmdastjóra.
Hún er fyrst kvenna á Íslandi til þess að gegna stöðu umdæmisstjóra og fjölumdæmisstjóra hér á landi. Jafnframt er hún ein af fyrstu konunum sem gegndi stöðu fjölumdæmisstjóra innan Lionshreyfingarinnar .

Hún er stofnfélagi í Lionsklúbbnum Eik og er senn að hefja sinn annan hring ef þannig má komast að orði því á næsta starfsári verður hún formaður í annað sinn.
Við spyrjum Laufeyju um hennar upplifun af því að taka við þessum embættum og hvernig henni lítist á stöðu kvenna í hreyfingunni eftir 20 ár?

Það var mjög sterk upplifun að gegna embætti umdæmisstjóra, ég hef alltaf litið á það sem viss forréttindi að vera umdæmisstjóri, fá tækifæri til þess að heimsækja klúbbana og hitta jafnmarga Lionsfélaga og umdæmisstjóraembættið veitir manni tækifæri til. Kynnast öllu þessu fólki sem hefur Lionshugsjónina að leiðarljósi og vinnur að sama markmiði og maður sjálfur, óháð stað, landi eða tungumáli.

Það að fá að vera fyrsta konan hérlendis var svo eins og viðbótin við þetta allt. Mér eru einkum hugleiknir einnig dagarnir í Lionsskólanum í Seoul en þar var alþjóðaþingið haldið árið sem ég varð umdæmisstjóri. Þar var mér tekið mjög vel og ekki síður á þinginu í Montreal árið eftir, þar sem ég var nánast eina konan með nokkur hundruð fjölumdæmisstjórum. 
Ekki síður hér heima var mér mjög vel tekið og þegar ég lít til baka held ég að Lionsmenn hafi verið mjög jákvæðir í minn garð og tilbúnir að fá konu í forystuhlutverk.
Ég er félögum mínum í Lionsklúbbnum Eik, sem og forystusveitinni afar þakklát fyrir að hafa kjarki til þess að bjóða mig fram til þessara starfa fyrir Lions gefa mér þetta tækifæri sem var svo einstakt.

Ég gekk til liðs við Lions árið 1985 í Lionessuklúbbinn Eik og var formaður þegar klúbburinn færðist yfir í Lionsklúbb. Ég var þátttakandi í þessum breytingum og held að þess vegna hafi ég verið tilbúin að taka að mér þetta forystustarf sem var svo gefandi og skemmtilegt og í raun man ég ekkert nema skemmtilegu kaflana úr þessu starfi. 
Það er ljóst að konur hafa haslað sér völl innan Lions og það er vel, sjónarmið beggja kynja geta verið ólík en þegar þau koma sama þá er víst að árangurinn verður góður.

Það skiptir hreyfingu eins og Lions miklu máli að forystan sé sterk,  áhrifarík og hafi þann drifkraft sem þarf til þess að knýja öll hjólin í vél Lionshreyfingarinnar.
Þar skipta konur miklu máli og vaxtabroddurinn er að sjálfsögðu að fjölga félögunum og þá sérstaklega konum.
Í dag ganga jafnt karlar og konur í öll embætti, viðhorfin hafa breyst og er það mjög jákvætt. Konur verða að axla ábyrgðarstörfin í Lions alveg jafnt og karlarnir.
Þegar ég horfi 20 ár fram í tímann er ég þess fullviss að þá verða konur komnar til metorða í æðstu stjórn hreyfingarinnar bæði hér á landi og ekki síður á alþjóðavettvangi svo sem í alþjóðastjórninni og sem alþjóðaforsetar.

Ég er oft hugsi yfir hvort verkefni eins og umdæmis- eða fjölumdæmisstjóri eigi að vera starf í tvö ár, það er svo óendanlega margt nýtt að læra í byrjun sem gæti nýst vel seinna árið í þessum viðamiklu störfum. Tíminn leiðir það svo í ljós hvort fleiri eru á sama máli í þessu efni.

Ég á mér þá ósk heitasta að Lionshreyfingin á Íslandi fái að vaxa og dafna í náinni framtíð og að þau góðu verk sem Lions stendur fyrir verði samferðamönnum bæði á Íslandi sem og öll störfin erlendis til  góðs og að líknar og mannúðarmál Lions sem stendur fyrir verði þeir ljósberar sem Lions var fyrir Helen Keller og Melvin Jones sagði; Lionshreyfingin er óhagganlegur friðarboði sem tryggir frelsi og réttlæti allra, einstaklinga og þjóða. Þannig sé ég Lions fyrir mér um ókomna tíð”

Með þessum orðum kveður frumkvöðullinn meðal íslenskra kvenna og er bjartsýn á Lionshreyfinguna nú sem aldrei fyrr.

Lions Clubs International News
Connect with Us Online
Twitter